Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1034, 115. löggjafarþing 434. mál: forfallaþjónusta í sveitum (heildarlög).
Lög nr. 35 29. maí 1992.

Lög um forfallaþjónustu í sveitum.


1. gr.

     Tilgangur laga þessara er að veita starfandi bændum og mökum þeirra aðstoð við nauðsynleg bús- og heimilisstörf þegar veikindi, slys eða önnur forföll ber að höndum.

2. gr.

     Stjórn forfallaþjónustu í sveitum skal skipuð þremur mönnum og skal einn tilnefndur af Búnaðarfélagi Íslands, einn af Stéttarsambandi bænda og einn tilnefndur af búnaðarsamböndunum sameiginlega.

3. gr.

     Búnaðarsambönd skulu starfrækja forfallaþjónustu eftir lögum þessum hvert á sínu svæði. Þó er tveimur eða fleiri búnaðarsamböndum heimilt að sameinast um framkvæmd þjónustunnar.
     Stjórn forfallaþjónustunnar ákveður fjölda afleysingamanna (stöðugilda) og/eða greiðslur fyrir hvert búnaðarsambandssvæði ásamt rétti til afleysinga samkvæmt áætlun er hún gerir árlega að höfðu samráði við Búnaðarfélag Íslands og Stéttarsamband bænda.
     Kostnaður við forfallaþjónustu í sveitum greiðist af tekjum af búnaðarmálasjóðsgjaldi, sbr. lög um Búnaðarmálasjóð.
     Búnaðarfélag Íslands annast bókhald og reikningsskil fyrir forfallaþjónustuna og skulu endurskoðaðir reikningar og ársskýrsla stjórnar lögð fram á búnaðarþingi.

4. gr.

     Allir bændur og makar þeirra eiga rétt á aðstoð vegna bústarfa í veikinda- og slysatilfellum. Enn fremur ef bústjórar og aðrir fastráðnir starfsmenn á búum forfallast enda hafi ráðning staðið sex mánuði eða lengur.
     Réttur til afleysingar skal miðast við vinnuframlag þess sem forfallast. Eitt ársverk við landbúnaðarstörf gefur rétt á hámarksþjónustu bæði fyrir bónda og maka hans.
     Sé um blandaðan rekstur að ræða skal réttur til afleysingar ráðast af hlutdeild landbúnaðarstarfa í vinnu þess sem forfallast. Nemi vinnuframlagið minna en einu ársverki við landbúnaðarstörf skerðist réttur til forfallaþjónustu í samræmi við það. Þó skulu þeir sem hafa allt framfæri sitt af landbúnaði ætíð njóta fullrar þjónustu nema sá aðili, er sinnir forföllum, hafi sannanlega tækifæri til að ná fullum daglaunum með vinnu annars staðar.

5. gr.

     Þegar forföll ber að höndum og óskað er aðstoðar skal tilkynna það til viðkomandi búnaðarsambands. Skal þá liggja fyrir læknisvottorð um að viðkomandi sé óvinnufær.

6. gr.

     Afleysingamenn skulu hafa alhliða starfsreynslu við bústörf. Koma skal á námskeiðum við búnaðarskóla sem þjálfa fólk til afleysingastarfa.

7. gr.

     Föst mánaðarlaun skulu miðast við 40 stunda vinnuviku.
     Afleysingamenn skulu hafa fæði og húsnæði endurgjaldslaust hjá viðkomandi búi á starfstíma sínum þar. Einnig greiðir búið ferðakostnað og yfirvinnu sem samið er um.
     Heimilt er að framlengja dvöl afleysingamanns á búi þegar tilskilinni þjónustu er lokið ef hans er ekki þörf annars staðar, enda greiðir þá viðkomandi bóndi laun afleysingamannsins. Slík ráðning skal þó vera ótímabundin ef þörf er á aðstoð annars staðar, t.d. í bráðum veikinda- eða slysatilfellum. Þá er stjórn forfallaþjónustunnar heimilt að taka upp samvinnu um skipulag og ráðningu starfsmanna við almenna afleysingaþjónustu sem rekin er á vegum samtaka bænda eða hóps bænda.

8. gr.

     Leiti Stéttarsamband bænda eftir því við landbúnaðarráðherra að greiðsla einstakra búgreinafélaga á búnaðarmálasjóðsgjaldi til forfallaþjónustunnar falli niður samkvæmt heimild í 3. mgr. 4. gr. laga um Búnaðarmálasjóð, nr. 41/1990, nær sú niðurfelling einungis til þeirra félagsmanna búgreinafélagsins sem staðfest hafa með undirskrift sinni að þeir séu ekki lengur aðilar að forfallaþjónustu bænda.

9. gr.

     Landbúnaðarráðuneytið setur, að fengnum tillögum stjórnar forfallaþjónustunnar, reglugerð um nánari framkvæmd þessara laga. Þar skal nánar skilgreint ársverk og mat á vinnuframlagi við landbúnaðarstörf, sbr. 2. mgr. 4. gr., og kveðið á um réttindi og skyldur afleysingamanna. Jafnframt skal kveðið á um hverjir hafa rétt til aðstoðar samkvæmt lögum þessum en þó skal ávallt vera skilyrði fyrir aðstoð að sá sem hennar óskar hafi staðið skil á gjöldum sínum til Búnaðarmálasjóðs.

10. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 32 29. maí 1979, um forfalla- og afleysingaþjónustu í sveitum.

Samþykkt á Alþingi 19. maí 1992.